Thursday, July 12, 2012

Leiðin liggur um Öskjuhlíð sem er hlekkur í keðju opinna svæða, sem tengjast allt frá Tjörninni um Öskjuhlíð, Fossvogsdal, Elliðaárdal og upp í Heiðmörk.  Þar er að finna fjölbreytta jarðsögu seinni hluta ísaldar. Öskjuhlíð var eyja við hærri sjávarstöðu fyrir u.þ.b. tíuþúsund árum.  Þess sjást merki í 43 m hæð yfir sjó í hlíðum Öskjuhlíðar, þveginn jökulruðningur og lábarðir hnullungar.  Berggrunnur Öskjuhlíðar er hið svokallaða Reykjavíkurgrágrýti, allt að 70 m þykkt, sem varð til í eldgosum á Mosfellsheiði síðla á ísöld. Jöklar gengu yfir það og merki þeirra eru víða skýr, s.s. undir Fossvogslögunum.












 Efst á Öskjuhlíð, þar sem Perlan er, var þjóðhátíðarsvæðið, sem notað var, þegar Íslendingar fögnuðu 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874.  Fleiri gamlar rústir er að finna í hlíðinni, en ekki hefur verið hægt að bera kennsl á þær allar.  Hafnargerðin á árunum 1913-18 krafðist mikils efnis og merkin um grjótnámið í Öskjuhlíð sjást glöggt.  Þaðan voru lögð spor vestur yfir Melana að Örfiriseyjargranda og um Norðurmýri að Battarísgarðinum.  Hliðarspor lá frá Skólavörðuholti, þar sem var malarnám.  Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var grjótnáminu haldið áfram fyrir bandamenn til ýmissa mannvirkja.  Önnur eimreiðanna, sem voru notaðar við hafnargerðina er í eigu og umsjá Reykjavíkurhafnar en hin stendur innandyra í Árbæjarsafni.




No comments:

Post a Comment